Baby Driver (2017) ★★★★★👍👍

Ungur maður hefur gaman af því að keyra og hlusta á tónlist.

Mér hefur aldrei dottið í hug að horfa á Hina hröðu og fokvondu. Bílahasar og eltingaleikir gera lítið fyrir mig. Ég kann samt að meta það sem er vel gert.

Stjarna Baby Driver er tónlistin. Í helstu atriðum myndarinnar þjóna athafnir og hasar þeim lögum sem er í gangi á hverjum tíma. Það eru margar myndir sem hafa reynt þetta en það hefur sjaldan tekist jafn vel.

Þó Baby Driver treysti á hljóðrásina meginhluta myndarinnar eru þögul atriði þar sem hlutir eru sagðir sem flestir áhorfendur, ég þar með talinn, skilja ekki nema út frá svipbrigðum þeirra sem tala saman. Kannski er táknmálið textað í einhverjum útgáfum en ég er ekki alveg viss hvort ég vilji fá þýðingu orð frá orði.

Heyrn er sumsé eitt meginþema Baby Driver. Titilpersónan notar heyrnartólin, í eyra ekki á, sem skjöld. Hann drekkir út suðinu og sorginni með tónlist en einangrar sig líka frá mannlegum samskiptum. Þegar tónlistin stoppar er hann berskjaldaður. Ég veit ekki hvort hann myndi nokkurn tímann hlusta á hlaðvörp þó hann noti svokallaða tónhlöðu¹ til að fylla eyru sín.

Mögulega er ást mín á Baby Driver að töluverðu leyti skýrð með notkun Edgar Wright á laginu Brighton Rock með Queen. Lagið kemur tvisvar fyrir í mjög ólíkum aðstæðum. Í fyrra skipti sér Jamie Foxx um að afskrifa Queen líkt og svo margir hafa gert í gegnum tíðina.

Brighton Rock er galið lag. Það blandar saman camp-húmor og þungarokki á dásamlegan hátt. Það er auðvitað gítarsólóið sem fólk man eftir, enda hefur Brian May notað það sem grunninn að gítarspuna á tónleikum á síðan. En mér þykir vænt um húmorinn og háðsrómantíkina. Það hvernig Freddie leiðir okkur úr spjallstílnum yfir í þungarokkið er í miklu uppáhaldi.²

Þó ég tali aðallega um tónlistina þá eru leikararnir frábærir. Sérstaklega gaman að sjá Paul Williams (höfundur Rainbow Connection) í litlu og óvenjulegu hlutverki. Flea og Jon Bernthal eru líka skemmtilegir.

Af aðalleikurunum að segja þá neglir Ansel Elgort titilhlutverkið. Jon Hamm og Eiza González eru frábær sem galna glæpaparið. CJ Jones sem leikur fósturpabba Baby er sjálfur heyrnarlaus (sem er augljós kostur). Lily James er aftur á móti ekki bandarísk en náði að plata mig (ég fyrirgef henni).

Eftir að hafa séð bæði Scott Pilgrim og Baby Driver nýlega í bíó er ég eiginlega á því að fyrrnefnda myndin sé betri. Þó allar myndir Edgar Wright treysti mikið á tónlist þá á það kannski best við um þessar tvær. Gunnsteinn, sem hefur hlustað stíft á tónlistina úr þessari síðustu ár, er á öfugri skoðun.

Nú bíðum við bara eftir The Running Man.

Óli gefur ★★★★★👍👍

¹ Tónhlaða er dæmi um það hvernig nýyrðasmiðir leggja oft óþarfa orku í að þýða vöruheiti þegar þeir ættu frekar að þýða almennari orð og hugtök. Orðið lifir nú eingöngu sem hluti orðsins hlaðvarp.

² Nú hef ég ekki lesið bókina Brighton Rock en ég held það séu lítil tengsl við texta lagsins nema að því leyti að ljósaborgin sem áfangastaður ferðamanna er í lykilhlutverki.

Happy little day, Jimmy went away
Met his little Jenny on a public holiday
A happy pair they made, so decorously laid
‘Neath the gay illuminations all along the promenade
It’s so good to know there’s still a little magic in the air
I’ll weave my spell

Lady MacBeth (2016) ★★★⯪☆👍

Árið 1865 giftist ung kona afundnum manni af aðalsættum og þarf að stytta sér stundir í fjarvistum hans.

Ég er ekki alveg 100% á því hvort Lady MacBeth sé góð eða virðist bara vera það af því Florence Pugh er frábær í henni en ég hallast að því síðarnefnda. Naomi Ackie er ákaflega góð.

Titillinn er villandi. Það er enginn Shakespeare hér.

Óli gefur ★★★⯪☆👍.

Spartacus (1960) ★★★★☆👍👍🖖

Þrakkverskur skylmingarþræll leiðir þrælauppreisn gegn Rómarveldi.

Spartakus er ein af þeim myndum sem hefur verið á áhorfslistanum í langan tíma (30+ ár). Hún kom í bíó og við fórum.

Við vitum öll að Rómverjar töluðu með breskum hreim og leikaravalið í Spartacus er miðað við það. Bandaríkjamenn eru í hlutverkum þræla. Eina undantekningin sem ég fann var John Gavin sem leikur Sesar (hann lék líka blanka kærastann í Psycho sama ár).

Stjörnur Spartakusar eru Kirk Douglas (titilhlutverk), Laurence Olivier (Krassus) og Tony Curtis (söngþræll sem fílar ekki snigla). 

Peter Ustinov leikur eiganda skylmingarþrælaskóla. Hann er auðvitað þekktastur fyrir að leika Hercule Poirot (ekki jafn góður og David Suchet). Samskipti hans og Peter Laughton í hlutverki Grakkusar¹ eru líklega skemmtilegustu atriði myndarinnar.

Woody Strode er í lykilhlutverki skylmingarþræls sem neitar að vingast við Spartakus. Herbert Lom, í hlutverki umboðsmanns sjóræningja frá Anatólíuskaga, er í vandræðalegasta búning myndarinnar því hann lítur eins og hann komi úr Lawrence of Arabia.

Jean Simmons leikur ambáttina sem Spartakus fellur fyrir.² Mér þótti verulega truflandi að hún var alltaf sýnd í mjúkum fókus (sumsé, úr fókus eða vaselín á linsunni) eins og var svo oft gert með leikkonur hér áður fyrr. Ástarsagan er á mörkunum að verða áhugaverð en nær aldrei að komast alla leið.

Sögulegt samhengi Spartacus er ekki Rómarveldi heldur Hollywood á tímum svarta listans. Handritshöfundurinn Dalton Trumbo var augljóslega að skrifa út frá eigin reynslu þegar honum var útskúfað fyrir aðild sína að Kommúnistaflokknum.³

Þegar kom að því að ákveða hver yrði skrifaður fyrir handriti Spartakusar brást Kirk Douglas ókvæða við þegar Stanley Kubrick stakk upp á sjálfum sér. Hann var harður á að Trumbo fengi nafn sitt á myndina og þar með lauk tíma Svarta listans … nema auðvitað var þessu fólki ekki endilega tekið fagnandi og sumir náðu sér aldrei.

Spartacus er rúmlega þrír klukkutímar að lengd og hefði mátt vera styttri. Þetta er ekki ein af allra bestu myndum Kubrick. Hún er samt svo stór í kvikmyndasögunni að hún er eiginlega skylduáhorf. Auðvitað hafa flestir séð vísað í fræga atriðið í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en það er ekki það eina sem hefur haft áhrif.

Maltin gefur ★★★½.

Óli gefur ★★★★☆ og er greinilega á sömu blaðsíðu.

¹ Það er ekki að ég búist við sögulegri nákvæmni í Hollywood kvikmyndum en það ruglaði mig alveg að hafa Grakkus þarna, þeir voru auðvitað margir í gegnum tíðina. Þessi er uppskáldaður.

² Tilvist hennar hefur farið framhjá flestum (öllum) sagnariturum fornaldar.

³ Við gætum sagt að allir séu Spartakus nema Elia Kazan.

Heimildarmyndin Hollywood on Trial (1976) er ágætur inngangur að þessu tímabili, sérstaklega af því leikstjórinn John Huston er sögumaður. Síðan þótti mér The Front góð á sínum tíma. Báðar komu út árið sem Trumbo lést.

Reyndar var útgáfan sem við sáum er með hómóerótíska atriðinu þar sem rætt er um kosti og galla sniglaáts. Ég er ekki að kvarta yfir því. Það er frægt að þegar atriðið var sett aftur inn þá var hljóðið glatað. Þá var Olivier látinn þannig að Anthony Hopkins gaf honum sannfærandi rödd en það eru ekki allir á því að Tony Curtis hafi verið jafn sannfærandi í hlutverki Tony Curtis.

Paths of Glory, Full Metal Jacket, 2001 (í bíó), Shining og mögulega þarf ég að gefa einhverjum annað tækifæri. Ég hef aldrei séð Barry Lyndon.

Uptown Girls (2003)★★★★☆👍👍

Ung kona í New York lifir á arfi foreldra sinna en þarf skyndilega að standa á eigin fótum, sem felst meðal annars í að fást við átta ára stelpu.

Á yfirborðinu er fátt sem bendir til þess að Uptown Girls sé sérstaklega góð. Jú, Brittany Murphy¹ og mjög ung Dakota Fanning. Síðan fylgir annar Clueless leikari, Donald Faison, með í kaupunum. Svo eru þarna Heather Locklear og House MD leikarinn Jesse Spencer.

Murphy og Fanning eru frábærar. Þær ná að selja fyrirsjáanlegar línur og kjánalegt grín. Kannski kaupir þú Uptown Girls ekki. Allt í lagi. Þetta er reyndar fyrst og fremst mynd um að takast á við sorg (eða að takast ekki á við sorg).

Flestir gagnrýnendur hötuðu Uptown Girls og áhorfendur voru ekki mikið hrifnari. Það voru undantekningar eins og Roger Ebert sem líkti Brittany Murphy við Lucy Ball sem er ekki fjarri lagi.

Fyrir utan það hve hrifinn ég var af Uptown Girls kom mér mest á óvart að kvikmyndatakan er frábær. Þar er Michael Ballhaus² á ferðinni. Leikstjórinn Boaz Yakin er líklega frægastur fyrir Remember the Titans (einnig með Donald Faison).

Í lok myndarinnar birtast nokkrar stjörnur í gestainnliti.

Maltin gefur ★★½ og tók var töluvert hrifnari en gagnrýnendur almennt.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Það var víst búið að gera tveggja þátta heimildarmynd What Happened, Brittany Murphy? (2023).

² Nafn sem ég lærði mjög ungur af því … Ball-haus. Hann vann að ótal myndum, s.s. Bram Stoker’s Dracula.

Mademoiselle (1966) ★⯪☆☆☆👎

Fordómar og siðleysi í frönsku þorpi.

Tony Richardson leikstýrir Mademoiselle og Jeanne Moreau leikur aðalhlutverkið og gerir það mjög vel.

Stutta útgáfan af rýninni, höskuldalaus:

Falleg myndataka og nokkur góð atriði falla í skuggann af kvenfyrirlitningu Mademoiselle. Um leið er erfitt að líta framhjá atriðum þar sem dýr eru kvalin, að því er virðist ósviðsett.

Maltin gefur ★★.

Óli gefur ★⯪☆☆☆👎.

Höskuldar hér að neðan. Stórir. Og gróft orðbragð.

Virðuleg einhleyp kennslukona (téð Mademoiselle) laðast að ítölskum farandverkamanni. Getuleysi hennar í að laða hann til sín verður til þess að hún fremur röð af glæpum sem kosta mannslíf.

Það má segja að Mademoiselle sé það sem er í dag kallað incel. Hana langar að lifa kynlífi en kann ekki að bera sig eftir því. Sem hefði getað verið áhugavert ef ekki fyrir hvernig málið er „leyst“.

Uppgjörið felst í því að Mademoiselle gerist sjálfviljug undirgefin í auðmýkjandi kynlífi með verkamanninum. Boðskapurinn virðist vera einhver kallafantasía sem ég heyrði stundum þegar ég var yngri um að, afsakið orðabragðið, piparjúnkur þurfi bara að láta ríða sér almennilega.

Þegar Mademoiselle snýr aftur í þorpið illa til reika gefur hún ranglega til kynna að kynlífið hafi verið gegn hennar vilja þannig að þorpsbúar myrða verkamanninn.

The Great Dictator (1940)★★★★★👍👍🖖

Rakari lendir í gyðingaofsóknum í landi sem er augljóslega ekki Þýskaland því einræðisherrann heitir Hynkel en ekki Hitler.

Við Gunnsteinn höfum stefnt á að horfa á The Great Dictator í mörg ár síðan við sáum Einræðisherrann í Þjóðleikhúsinu. Nú þegar við nýttum tækifærið til að sjá hana í bíó er liðið of langt síðan að ég geti komið með gáfulega greiningu á tengslum myndar og leikrits.

Chaplin leikur rakarann og Hynkel. Þáverandi eiginkona hans Paulette Goddard leikur aðalkvenhlutverkið.

Chaplin hafði undirbúið gerð The Great Dictator í einhver ár á tímabili þar sem stóru kvikmyndaframleiðendurnir voru enn hræddir við að styggja Nasista. Síðan vildi svo til að upptökur hófust stuttu eftir innrás Þjóðverja í Pólland.

Þó The Great Dictator hafi verið gerð áður en glæpir Nasista komu nákvæmlega í ljós þá fjallar hún að miklu leyti ofsóknir gegn gyðingum¹. Að þessu leyti er hún töluvert áhrifaríkari en To Be or Not to Be (1942).

Brandararnir í The Great Dictator eldast misvel og sumt er full endurtekningarsamt. Það er samt nóg af atriðum sem eru ennþá fyndin þannig að myndin missir sjaldan dampinn. Einkunn mín væri væntanlega allavega stjörnu lægri ef ekki væri fyrir lokaræðuna. Hún er stórfengilega og nær að greina samtíma okkar betur en kvikmyndir frá þessu ári.

Maltin gefur ★★★½.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Chaplin var ekki gyðingur þó hann hafi oft verið „ásakaður“ um það. Honum þótti það samt ekki eitthvað sem hann þyrfti að afneita.

Winter’s Bone (2010) ★★★★☆👍👍

Þegar faðir hennar hverfur neyðist dreifbýlisstúlka til þess að leggja allt í sölurnar til þess að finna hann og tryggja framtíð fjölskyldunnar.

Jennifer Lawrence¹ leikur aðalhlutverkið í Winter’s Bone og er bara frábær. Síðan eru líka Sheryl Lee (Twin Peaks) og Dale Dickey (í bitastæðu hlutverki sem hún fær of sjaldan). Leikstjóri er Debra Granik sem gerði líka Leave No Trace (sem Ásgeir var mælti með við mig í síðasta langa spjallinu okkar).

Winter’s Bone er gerð eftir samnefndri skáldsögu Daniel Woodrell. Hann hefur kallað bækur sínar country noir sem á vel við um þessa. Þetta er grípandi mynd með mjög dökkum tónum.

Maltin gefur ★★★ og segir að hún gefi innsýn í heim sem fáir þekki en ég er smá efins um raunveruleikagildið, sérstaklega eftir að hafa lesið gagnrýni á bókina Hillbilly Elegy.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Ég er með meinloku sem veldur því að ég rugla saman nöfnum Jennifer Lawrence og Scarlett Johansson. Samt veit ég alveg nákvæmlega hvor er hvor.

To Be or Not to Be (1942) ★★★★☆👍👍🖖

Árið er 1941 og pólskir leikarar flækjast inn í klækjavef. Gamanmynd.

Þetta var skrýtið áhorf. Ég hef séð To Be or Not to Be (1983) með Mel Brooks svo oft að ég vissi nær alltaf hvað var að fara að gerast og hvað fólk var að fara að segja. Sú er sumsé frekar trú hinni upprunalegu. Ég held ég skilji samt hvers vegna fólk taldi þörf á endurgerð en sú pæling á kannski heima í umfjöllun um þá útgáfu.

Í To Be or Not to Be sést desember 1941 á dagatali. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að þá hófu Bandaríkin þátttöku sína í Seinni heimsstyrjöldinni (eftir hvatningu frá japanska flughernum). Upptökum á myndinni var væntanlega lokið þegar árásin var gerð á Pearl Harbour. Það var því töluverður munur á stemmingunni í landinu þegar myndin var í framleiðslu og þegar hún var frumsýnd.

Það má segja að einn helsti galli To Be or Not to Be sé að hún er mjög síns tíma sögulega séð. Hún passar ekki í það sögulega samhengi sem við höfum um Seinni heimstyrjöldina almennt og nasista¹ sérstaklega.

Það að plottið sé algjör þvæla er alveg fyrirgefanlegt því brandararnir ganga svo vel upp.

Ernst Lubitsch leikstýrði To Be or Not to Be og ef ég hefði séð fleiri myndir eftir hann myndi ég kannski segja eitthvað gáfulegt um hans fræga stíl.

Í aðalhlutverkum í To Be or Not to Be eru grínistinn Jack Benny, Carole Lombard og mér fannst ungi flughermaðurinn kunnuglegur en áttaði mig ekki á að þarna væri á ferðinni Robert Stack. Hann varð frægur fyrir að leika í sjónvarpsseríunni The Untouchables en fólk af minni kynslóð sem var með Stöð 2 þekkir hann fyrst og fremst sem kynninn í Óráðnum gátum.

To Be or Not to Be var síðasta mynd Carole Lombard sem lést í flugslysi um mánuði fyrir frumsýningu. Hún hafði verið að selja stríðsskuldabréf. Eiginmaður hennar Clark Gable heiðraði minningu Lombard með því að ganga í herinn líkt og hún hafði svo oft hvatt hann til.

Maltin gefur ★★★½.

Óli gefur ★★★★☆👍👍🖖 sem er svolítið litað af því að hafa séð endurgerðina fyrst.

¹ Það er alltaf sagt nasís frekar en natsís. Held að það hafi verið frekar útbreitt á þessum tíma.

One Battle After Another (2025) ★★★☆☆👍

Byltingin étur börnin sín, eða er það fasisminn sem drepur börnin sín?

Fyrstu atriði One Battle After Another eru vandræðalega kjánaleg og ég var ekki viss um að ég nennti meiru af svoleiðis rugli. Lukkulega batnaði hún þegar á leið.

Ádeilan í One Battle After Another er ekki sérstaklega beitt. Hún hefur lítið að segja um nákvæmlega það sem er, og hefur verið, í gangi í Bandaríkjunum. Mögulega er myndin einfaldlega trú skáldsögu Thomas Pynchon Vineland frá árinu 1990.

Chase Infiniti var best í One Battle After Another sem stelpan. Það var eiginlega of lítið af Benicio del Toro (ágætis árangur að vera í mynd frá P.T. og Wes sama árið en hvers á Paul W. S. að gjalda?). DiCaprio mjög skemmtilegur. Regina Hall stóð uppúr restinni og mér þótti gaman að sjá Kevin Tighe í óþokkahlutverki (eins og svo oft áður).

Ég er að reyna að fatta á hverjum Sean Penn byggir persónu sína á. Þetta er líklega blanda af mörgum (s.s. Paul Wolfowitz) en mér finnst samt eins og kækirnir séu sérstaklega frá einhverjum fasistalúða en ég man ekki hverjum. William F. Buckley Jr. er líklega þarna í hræringnum. Ég var samt ekki að falla fyrir þessum „leiksigri“.

One Battle After Another var best þegar hún var hrein spennumynd með smá fyndni og verst þegar fíflagangurinn fékk að ráða. Tónninn var svolítið á reiki.

Óli gefur ★★★☆☆👍.

Queen Christina (1933) ★★⯪☆☆🫴

Kristína er krýnd konungur Svíþjóðar en verður minna og minna spennt fyrir hlutverki sínu.

Mín yfirborðskennda þekking á sögu Svíþjóðar er nægileg til þess að ég þekki aðeins til Kristínu. Uppáhaldið mitt er auðvitað að lögin gerðu ekki ráð fyrir ríkjandi drottningu en sögðu ekkert um að konungurinn þyrfti að vera karlmaður. Kynusli.

Ég veit líka að saga Kristínu var töluvert áhugaverðari en myndin Queen Christina gefur til kynna. Það er voðalegt að breyta þessu í einfeldningslega ástarsögu.

Í aðalhlutverki Queen Christina er sænsk leikkona sem hóf líf sitt sem Greta Lovisa Gustafsson en er betur þekkt sem Greta Garbo. Á móti henni leikur John Gilbert sem er oft ranglega sagður hafa verið með of lélega rödd fyrir talmyndir.¹ Garbo og Gilbert léku saman í fjórum myndum og áttu á tímabili í ástarsambandi en sambandi þeirra lauk endanlega þegar hann hélt við aukaleikara við tökur á þessari mynd.

Queen Christina er á köflum mjög fyndin og á stundum hugsaði ég til The Great með Elle Fanning. Því miður er hún oftar þurr og óáhugverð.

Queen Christina er frekar djörf og mig grunar að það eigi þátt í orðspori hennar. Í einu atriði kyssir Garbo mótleikkonu sína á munninn.² Hún var gerð árið áður en Hays-ritskoðunin tók völdin og gefur sterklega til kynna að persónur myndarinnar lifi kynlífi(!). Sjokkerandi.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.

¹ Í Singin’ in the Rain er gert grín að kjánalegum línum sem John Gilbert þurfti að fara með í einhverri af fyrstu talmyndum sínum. Leonard Maltin segir raunverulegu ástæðuna fyrir hnignun ferils hans hafi verið slagsmál við Louis B. Mayer (seinna M-ið í MGM).

² Garbo er sögð hafa verið tvíkynhneigð sem gerir kossinn áhugaverðari.

This Is Spinal Tap (1984) ★★★★★👍👍🖖

Öldruð rokkhljómsveit¹ tekst á við mótlætið sem felst í dvínandi vinsældum og afskiptasemi plötufyrirtækisins sem vill hemja listræna tjáningu þeirra. Grínheimildarmynd.

Ég hef séð ótal heimildarmyndir um rokkhjómsveitir og rokkara. Það hve This is Spinal Tap nær að líkja eftir þeim er magnað. Þetta á bæði við um stíl og efnivið. Þessar persónur eru allar kunnuglegar. Það hefur alltaf verið ákveðinn fáránleiki í kringum rokktónlist og hér hefur hann verið skrúfaður upp í ellefu.

Það gæti verið ákveðinn annmarki á This Is Spinal Tap til framtíðar að fólk þekkir ekki vísanirnar. Samt er þetta líklega fyndið hvort eð er.

Rob Reiner leikstýrði This Is Spinal Tap og er einn af höfundum handritsins. Þetta er á hans gullnu árum þar sem hann leikstýrði röð af klassískum myndum án þess þó að vera metinn að verðleikum.

Hljómsveitin sjálf, og einu stöðugu meðlimirnir til dagsins í dag, eru Christopher Guest (lávarður og herra Jamie Lee Curtis), Michael McKean og Harry Shearer (The Simpsons).

Það er röð af frábærum leikurum í gestahlutverkum. Ed Begley Jr. sést á trommunum en talar ekkert, Anjelica Huston er hönnuðurinn sem gerir nákvæmlega það sem beðið var um, Billy Crystal og Dana Carvey eru þjónar, Fred Willard hittir hljómsveitina á herstöðinni, Paul Shaffer skipuleggur plötuáritun, Bruno Kirby er bílstjóri og Fran Drescher vinnur fyrir plötufyrirtækið.

Maltin gefur ★★★.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Þess tíma þar sem okkur fannst fertugir kallar að spila rokk aldraðir.

The Sound of Music (1965) ★★★★★👍👍🖖

Þegar ung kona er send til að gerast kennslukona sjö barna gamals kapteins í Austurríki á seinni hluta fjórða áratugarins finnst henni andrúmsloftið þar jafnvel meira þrúgandi en í klaustrinu sem hún var í áður.

The Sound of Music er klassískur söngleikur eftir Rodgers og Hammerstein byggður á sannri¹ sögu von Trapp fjölskyldunnar. Í aðalhlutverkum eru Julie Andrew (nýfræg eftir Mary Poppins) og Christopher Plummer (alltof ungur með gervi-grátt hár og síðan sár yfir því að söngurinn hans var ekki notaður).

Yfir það heila voru von Trapp börnin frábær (þó sú sextán ára stúlkan hafi ekki litið út eins og táningur). Leikferill flestra þeirra var stuttur og/eða snubbóttur. Nicholas Hammond (Friedrich) hefur þó leikið í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Síðasta hlutverk hans í stórri mynd er líklega Once Upon a Time in Hollywood. Heather Menzies (Louisa) lék síðan aðalhlutverkið í Piranha. Það mætti halda að Tarantino og Dante séu nördar.

Það er ekkert leyndarmál að ég er veikur fyrir söngleikjum en ég bjóst einhvern veginn við að The Sound of Music yrði of væmin fyrir mig. Við ákváðum að skreppa þar sem myndin var sýnd í sérstakri Goth² sýningu hjá Smárabíó.

Þó ég hefði aldrei séð hana áður höfðu flest lögin Í The Sound of Music síast inn hjá mér. Það kom mér á óvart að myndin er frábær. Ekki nóg með að ég hafi verið að syngja með nær alla myndina³ heldur var ég síhlæjandi. Þetta er ákaflega fyndin mynd.

Upphafsatriðið er auðvitað klassískt og það er erfitt að ímynda sér nákvæmnina sem þurft hefur til því auðvitað er þetta tekið upp með þyrlu. Það var gríðarlega flókið og grey Julie Andrews fauk allavega einu sinni um koll.

Þó var uppáhaldsatriðið mitt í The Sound of Music þegar Christopher Plummer tjáði tilfinningar sínar á skýran hátt þegar hann sneri aftur eftir mánaðarlangt ferðalag.

Leikstjóri The Sound of Music er Robert Wise sem er einnig þekktur fyrir að klippa myndir eins og Citizen Kane og The Magnificent Ambersons. Hann leikstýrði líka fyrstu Star Trek myndinni … sem mætti kannski gleymast.

Maltin kemur á óvart og gefur Tónaflóðinu ekki nema ★★★½.

Óli ætlar að ganga skrefinu lengra og segja ★★★★★👍👍🖖 því þetta er frábær mynd sem eldist vel og er með góðan og fallegan andfasískan boðskap.

¹ Nokkurn veginn.

² Lélegt val á stafagerð var fyndið en ekki hvernig Smárabíó klúðraði hléinu. Síðan var spurningaleikurinn óþarfur. Af hverju kemst bíóið upp með að auglýsa sýningu klukkan 16:00 þegar myndin byrjar ekki fyrren 16:20? Svo virtist sýningartjaldið vera ákaflega vannýtt, breiðar svartar rendur fyrir ofan og neðan og beggja vegna við myndina eins og gamalt YouTube myndband.

Þetta var sumsé 60 ára afmælissýning en einhver hefur ekki kunnað að gera <sup>th</sup>.

³ Ég söng lágt.

Sneakers (1992) ★★★★⯪👍👍

Hópur af hökkurum og ýmis konar öryggissérfræðingum kemst í hann krappann.

Sneakers er líklega uppáhalds Robert Redford myndin mín. Meðleikarar hans eru allir frábærir. Sidney Poitier, Dan Aykroyd (að leika sjálfan sig), River Phoenix, David Straitharn (eiginlega langbestur), Mary McDonnell og Ben Kingsley.

Ekki hafði ég hugmynd um hver Donal Logue væri þegar ég sá Sneakers síðast og það er eiginlega stórfyndið að sjá hann hérna sem hipp og kúl stærðfræðing. Svo er Stephen Tobolowsky (Ned! Ryerson!) líka á svæðinu. Og röddin sjálf. James Horner kemur sterkur inn með tónlistina (þó hún minni á köflum aðeins á The Untouchables).

Sneakers er meiri gamanmynd en spennumynd. Hún tekur sig nefnilega ekkert sérstaklega alvarlega. Þannig leyfi ég henni kannski að sleppa með atriði sem spennumynd hefði þurft að hafa á hreinu.

Maltin er fúll á móti og gefur bara ★★½.

Óli gefur ★★★★⯪👍👍 er glaður að sjá hve vel Sneakers hefur elst.

The Long Walk (2025) ★★★★☆👍👍

Hópur ungra karlmanna tekur þátt í langgöngukeppni þar sem þeir hafa allt að vinna en öllu að tapa.

The Long Walk er ein af þeim bókum sem Stephen gaf út undir dulnefni. Reyndar vill svo til að í nóvember kemur ný útgáfa af The Running Man (í leikstjórn Edgar Wright) sem var upprunalega gefin út undir sama nafni. Stórt ár fyrir Richard Bachman.

Þó ég hafi lesið margar bækur Stephen King hef ég aldrei lesið The Long Walk þannig að ég vissi lítið um söguþráðinn og ekkert um útkomuna. Myndin snýst fyrst og fremst um sambandið sem myndast milli þeirra karlmanna sem taka þátt í göngunni miklu og hugleiðingar þeirra um lífið í alræðisríki.¹

Leikstjóri myndarinnar Francis Lawrence er líklega þekktastur fyrir að leikstýra Hungurleikjamyndum þannig að hann finnur sig greinilega í dystópíum. Handritshöfundurinn J.T. Mollner leikstýrði og skrifaði eina bestu mynd síðsta árs, Strange Darling.

Ef ég ætti að flokka The Long Walk myndi ég kalla hana hryllingsmynd, sérstaklega af því að ofbeldið minnir helst á slíkar myndir. En ég var mjög hrifinn. Hún greip mig frá upphafi til enda. Persónurnar voru áhugaverðar og leikararnir góðir.

Aðalleikararnir eru ekki stór nöfn en Judy Greer og Mark Hamil eru í smærri hlutverkum.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

¹ Þó efni The Long Walk endurspegli að mörgu leyti ástandið í Bandaríkjunum í dag skilst mér að í bókinni sé ljóst að verið sé að fjalla um Víetnamstríðið.

Dead of Night (1945) ★★★★★👍👍🖖

Þegar maður mætir í hús úti í sveit hittir hann fólk sem hann kannast við í fyrsta skipti og þau fara að segja hvert öðru sögur. Gamanhryllingsmynd.

Dead of Night er mynd sem endurómar í gegnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti síðustu átta áratugi. Áhrifin eru gríðarleg. Þetta er að mörgu leyti eins og þættir af Twilight Zone sem hafa verið samtvinnaðir.

Nú er erfitt að ímynda sér hvernig það hefur verið að sjá Dead of Night árið 1945 (rétt eftir stríðslok). Voru hryllingssenurnar hryllilegri? Var golfatriðið ennþá fyndnara? Lokaatriði myndarinnar eru ennþá áhrifaríkt.

Leikstjórar Dead of Night eru fjórir og sjá hver um sinn hluta myndarinnar. Sá eini sem ég þekkti raunverulega fyrir fram er Charles Crichton sem leikstýrði A Fish Called Wanda rúmum fjörutíu árum seinna. Hann sá um fyndnasta¹ hluta myndarinnar.

Af leikurum má helst nefna Michael Redgrave (faðir þriggja leikara sem einnig bera ættarnafnið Redgrave og er Vanessa líklega best þekkt). Sally Ann Howes var fimmtán ára þegar myndin kom út en er væntanlega best þekkt fyrir að leika Truly Scrumptious² í Chitty Chitty Bang Bang (1968).

Sögurnar koma úr nokkrum mismunandi áttum, ein er til dæmis byggð á sögu H. G. Wells og önnur vísar í raunverulegt morðmál frá nítjándu öld (morðinginn³ lést hundrað ára gamall árið áður en myndin kom út).

Dead of Night virkar á eigin forsendum í dag og á greinilega sinn sess í kvikmyndasögunni.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★.

¹ Ég var hrifinn af þessu atriði en mér sýnist ég vera í minnihluta.

² Ian Fleming skrifaði bókina og ber því væntanlega ábyrgð á þessu nafni eins og mörgum „stórfyndnum“ kvenmannsnöfnunum í James Bond.

³ Það eru víst ekki allir sammála um hver morðinginn hafi verið.

Another Country (1984) ★★★★☆👍👍

Eldri maður segir frá því hvernig landið hans sveik hann áður en hann sveik landið.

Another Country byggir á leikriti sem er byggt á sannsögulegum atburðum. Aðalpersónan Guy Bennett er lauslega byggð á Guy Burgess sem var einn af Cambrigde njósnurum fimm og endaði líf sitt í útlegð í Sovétríkjunum.

Rupert Everett, Colin Firth og Cary Elwes áður en þeir urðu frægir, allavega utan Bretlands, leika skólastráka í Eton sem reyna að lifa af í þessari skrýmslaverksmiðju. Þar fær Guy áhuga á kommúnisma og strákum sem verður til þess að hann lendir upp á kant við ráðandi öfl sem eru aðrir skólastrákar.

Maltin gefur ★★½ og telur að kannski séu Bretar spenntari fyrir myndinni.

Óli gefur ★★★★☆.

To All the Boys I’ve Loved Before (2018) ★★★★☆👍👍

Unglingsstúlka sem aldrei hefur átt kærasta fær allt í einu athygli strákanna sem hún hefur verið skotin í áður.

Þetta er ekki byltingarkennd saga en skemmtileg tilbrigði. Það eru líklega leikararnir sem bera ábyrgð á því að To All the Boys I’ve Loved Before náði til mín.

Lana Condor er stúlkan. Mig rámar í hana úr Deadly Class sem er einn af sjónvarpsþáttunum sem Netflix myrti að ósekju eftir aðeins tíu þætti. Noah Centineo leikur íþróttagaurinn. John Corbett sem ég tengi alltaf við Northern Exposure (en er líklega þekktari sem Aidan í Sex and the City) er hlutverki pabbans.

Óli gefur ★★★★☆👍👍.

Fighting With My Family (2019) ★★⯪☆☆🫴

Það reynir á þegar tvö systkini fá tækifæri til að láta drauma sína rætast í glímuheiminum. Sannsöguleg mynd.

Æi.

Florence Pugh er frábær og ég hefði varla nennt að horfa á Fighting with My Family ef hún hefði ekki verið þarna til að gefa persónunni dýpt (ef ekki hæð¹). Jack Lowden (Slow Horses) mjög góður en í minna hlutverki. Skemmtilegt að Lena Headey (Game of Thrones) og Nick Frost (Shaun of the Dead o.s.frv.) séu þarna. Þetta er samt aðallega auglýsing fyrir glímufyrirtæki.

Stephen Merchant leikstýrði og skrifaði handritið.

Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.

¹ Það er skondið atriði í myndinni þar sem Florence Pugh gnæfir yfir andstæðing sinn með alla 162 centimetrana sína.

Paris, Texas (1984) ★★★★★👍👍🖖

Maður gengur út úr eyðimörk, hvað var hann að flýja?

Paris, Texas er ein af þessum kvikmyndum sem hefur verið að eilífu á listanum mínum þannig að þegar við sáum hana á dagskrá hjá Bíó Paradís ákváðum við feðgar að drífa okkur.

Wim Wenders leikstýrði Paris, Texas. Sam Shepard skrifaði handritið en L.M. Kit Carson aðlagaði það (ég er ekki alveg að fatta verkaskiptinguna). Harry Dean Stanton (Alien, Repo Men) og Dean Stockwell (Quantum Leap, Blue Velvet) leika bræður og hæðast þannig að meinloku minni sem lýsir sér þannig að ég rugla saman nöfnum þeirra. Svo er það auðvitað Nastassja Kinski.

Hunter Carson leikur átta ára strák. Foreldrar hans voru leikkonan Karen Black og fyrrnefndur L.M. Kit Carson. Mamma hans fylgdi honum við tökur og hjálpaði honum að negla hlutverkið.

Paris, Texas greip mig alveg frá upphafi. Það er fínt jafnvægi í tóninum sem leyfir henni að sveiflast frá drama yfir í húmor og aftur í drama. Þetta er líka gullfalleg mynd. Það sem sló mig sérstaklega var í lokin þegar spegill sameinar tvær manneskjur í eina.

Einfaldur bílaeltingaleikur í Paris, Texas náði að vera gríðarlega spennandi af því að mér fannst eitthvað raunverulegt vera í húfi.

Stóra uppgjör myndarinnar og endalok hennar höfðu greinilega mikil áhrif á áhorfendur því að í þögninni heyrði ég nokkrum sinnum „sniff“ frá fólki sem átti í erfiðleikum með að halda aftur af tárunum.

Maltin gefur ★★½ en tekur fram að hans sé jaðarskoðun. Það má skilja á honum að vandamálið sé kannski að hann sé ekki hrifinn af verkum Sam Shepard.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 enda myndi Paris, Texas lenda ofarlega á lista hans yfir bestu myndir sem hann hefur séð.

Beitiskipið Pótemkin (1925) ★★★★★👍👍🖖

Árið er 1905 og maðkað kjöt dregur dilk á eftir sér.

Ég veit ekki hve gamall ég var þegar ég sá kvikmyndina Alexander Nevskíj eftir Sergei Eisenstein en mig langaði strax að sjá fleiri af hans verkum. Rúmlega þrjátíu árum seinna horfði ég loksins á Beitiskipið Pótemkin. Mér til varnar verð ég að segja að ég hef reynt áður og það hefur ekki alltaf verið auðvelt að nálgast hana.

Pótemkin er ein mest ívísaða mynd kvikmyndasögunnar. Augljósa dæmið er The Untouchables en skot úr henni eru líka gjarnan sýnd þegar við fáum montage af frægustu kvikmyndum allra tíma.

Stendur Pótemkin ennþá undir lofinu? Ég held það. Hún var fyndnari en ég bjóst við. Ódessaþrepin eru óneitanlega flott. Atriðið þar sem almenningur vottar látnum skipverja er áhrifamikið. Í uppáhaldsatriðinu mínu sjáum við mannfjöldann bregðast við manni sem reynir að æsa til gyðingaofsókna. Auðvitað glæsimynd sem átti ekki við rök að styðjast.

Maltin gefur ★★★★.

Óli gefur ★★★★★ (sem er jafnmikið) 👍👍🖖.

Take This Waltz (2011) ★★★⯪☆👍👍

Kona vill prufa eitthvað annað en kjúkling. Sambandsdrama.

Sarah Polley, sem við munum öll eftir úr Leiðin til Avonlea, leikstýrði og skrifaði handrit Take This Waltz. Líkt og hún er myndin kanadísk. Aðalleikonan Michelle Williams er hins vegar bandarísk (og lék í Dawson’s Creek) og þó hún hafi ítrekað verið sorrí er ég ekki viss um hvort framburðurinn hafi verið góður eða ekki.

Hin aðalhlutverkin í Take This Waltz eru í höndum kanadísku leikarana Seth Rogen og Luke Kirby (Lenny Bruce í The Marvelous Mrs. Maisel). Svo er hin ameríska Sarah Silverman í minna hlutverki.

Það sem stendur upp úr er frammistaða Michelle Williams. Hún er alveg frábær hérna.

Maltin gefur ★★½ en segir réttilega að sumir hlutar myndarinnar séu betri en heildin.

Óli var aðeins hrifnari og gefur ★★★⯪☆👍👍.

Fitting In (2023) ★★★★⯪👍👍

Sextán ára stúlka¹ uppgötvar að hún tilheyrir þeim hluta mannkyns sem ekki passar þægilega í hefðbundna² kynjaflokkun.

Ég rakst á Fitting In þegar ég var að fara yfir lista af bestu myndum síðasta árs³. Síðan fékk hún að bíða meðan ég plægði í gegnum myndirnar sem voru tilnefndar. Augljós mistök.

Fitting In er á köflum sorgleg en eiginlega meira fyndin. Hún náði mér alveg. Þið ættuð öll að sjá hana.

Maddie Ziegler er frábær í aðalhlutverkinu. Sama gildir um Emily Hampshire (mömmuna) og Djouliet Amara (vinkonuna).

Óli gefur ★★★★⯪👍👍.

¹ Ég segi „stúlka“ og ég segi „hún“ bæði af því myndin notar slík orð og vegna þess að hún (myndin) er sjálfsævisöguleg og leikstjórinn Molly McGlynn notar „hún“.

² Hefðbundin, bundin í hefð, ekki staðreyndir. Um leið og einhver segir að kynin séu bara tvö þá er sá búinn að dæma sig úr leik. Við lærðum strax í grunnskóla að kynlitningar raðast ekki bara á tvennan hátt. Síðan verður þetta ennþá flóknara þegar kafað er dýpra og þá ættu sérfræðingar að fá að tala en ekki einhverjir gaurar sem treysta á grunnskólaþekkingu (þó ég hafi greinilega fylgst betur með en sumir).

³ Ártalið er líklega loðið af því þetta er kanadísk mynd og listarnir sem ég skoðaði miðuðu við bandaríska frumsýningu. Stundum er hlutir bara flóknari en svo að hægt sé að skella einum merkimiða á þá.

It Follows (2014) ★★⯪☆☆🫴

Ung kona lendir í eitruðum karlmanni og þarf að kljást við afleiðingarnar.

Það er til gamall brandari, lífið er sjúkdómur sem smitast við kynlíf. Sem þýðir auðvitað að dauðinn er líka kynsjúkdómur.

Á meðan ég horfði á It Follows var ég ítrekað að hugsa upp lausnir fyrir persónurnar. Allt mjög augljóst. Ég held að til þess að njóta þessarar myndar þurfir þú að vera hrifinn af draumkenndum myndum. Það er ég ekki. Allavega þarf það að vera sérstaklega vel gert til þess að ég heillist.

David Robert Mitchell er sami leikstjóri og gerði Under The Silverlake sem ég féll ekki heldur fyrir. Ég hef fulla trú á því að hann geti, og hafi mögulega gert, kvikmynd sem mér þætti sérstaklega góð því hæfileikarnir eru augljóslega til staðar.

Sömu sögu má segja um leikarana. Það væri örugglega gaman að sjá þau aftur.

Óli gefur ★★⯪☆☆

The Untouchables (1987) ★★★★⯪👍👍🖖

Sannsöguleg¹ kvikmynd um baráttu Elliott Ness og hinna ósnertanlegu við að koma Al Capone á bak við lás og slá.

Brian De Palma leikstýrir. Kevin Costner leikur Elliott Ness. Robert De Nero er Al Capone. Sean Connery er gamla götulöggan Malone sem kennir Ness að vera lögga í Chicago. Andy Garcia er unga löggan. Charles Martin Smith er talnaglöggi gaurinn frá Washington. Patricia Clarkson er eiginkona Ness og móðir ímyndaðra barna hans.

Billy Drago er Frank Nitti sem var í alvörunni hálfgerð skrifstofublók en er hérna sýndur sem helsti morðingi Capone. Það eru líka mörg kunnugleg andlit í myndinni. Borgarfulltrúi sem reynir að múta Ness er leikinn af Del Close sem er frægastur fyrir áhrif sín á „spunagrín“ (improv).

Upphafstitlarnir í The Untouchables eru einhverjir þeir flottustu í kvikmyndasögunni. Auðvitað er tónlistin lykilatriði. Eftir myndina endurómaði Gunnsteinn hugsanir mínar þegar hann sagðist ekki vera viss um hvort myndin væri frábær eða hvort tónlistin hefði bara sannfært hann um það.

Ennio Morricone er auðvitað eitt helsta tónskáld kvikmyndasögunnar. Stundum velti ég fyrir mér hvernig samvinna hans við De Palma hefði verið því það eru skot í The Untouchables sem minna á spagettívestra Sergio Leone og þar fannst mér Morricone leyfa tónlistinni að undirstrika það.

Þegar á leið myndinni fattaði ég að ég hefði klúðrað kvikmyndauppeldinu. Ég hafði fyrir löngu síðan ákveðið að sýna Gunnsteini Beitiskiptið Pótemkin áður en við færum á The Untouchables.

Þegar ég var líklega í tíunda bekk var myndin Naked Gun 33⅓: The Final Insult ný og einn kennari ákvað að taka okkur í smá kvikmyndafræðslu. Á mjög yfirlætisfullan hátt var okkur sagt að við föttuðum sko alls ekki alla brandarana í myndinni, til dæmis hefði atriðið í tröppunum upprunalega verið í The Untouchables.

Þetta var stór gott tækifæri til að svara á yfirlætisfullan hátt að þó að Naked Gun 33⅓ væri vissulega að vísa í mynd De Palma þá kæmi upprunalega atriðið frá sóvesku myndinni Beitiskipið Pótemkin. Mig langaði að segja þetta þó ég hefði reyndar aldrei séð þá upprunalegu. Stundum hafði ég vit á að þegja.

Það er ekki verið að fela vísunina í Pótemkin í The Untouchables. Það eru til dæmis fjölmargir sjóliðar² í lestarstöðinni sem fara upp og niður tröppurnar. Atriðið er auðvitað klassískt og sýnir að De Palma er frábær leikstjóri. Spenna og drama.

Það eru samt klunnaleg atriði sem veikja The Untouchables. Þar má nefna eldspítnabréfið og kannski sérstaklega hvernig réttarhaldinu lýkur. Aðeins of kjánalegt. Við getum líklega kennt handritshöfundinum David Mamet um en hann var örugglega óánægður með myndina því flestir leikarar myndarinnar reyndu að gefa eitthvað af sér í stað þess að þylja bara upp línurnar hans.

Það er auðvitað frægt að hreimur Sean Connery í The Untouchables er vandræðalega lélegur. Hann á að vera Íri en hljómar eins og Skoti. Og þó. Í þetta skiptið fylgdist ég með og ég held að það sé bara persóna Andy Garcia sem kallar Malone írskan og það er í fyrsta skiptið sem þeir hittast.

Það er líka ekkert ósennilega að jafnvel þó Malone teldi sig írskan þá væri hann uppalinn í Skotlandi. Þannig að í þessu tilfelli dæmdi fólk Connery kannski of harkalega.

Við áhorfið rifjaðist upp fyrir mér ein undarleg þýðing sem var á sínum tíma í íslenska textanum á The Untouchables. Einn glæponinn er að hvetja Ness til að handtaka sig en þýðingin var „áreittu mig“. Þýðandinn heyrði greinilega „harrash me“ en ekki „arrest me“.

Maltin gefur ★★★★

Óli gefur ★★★★⯪ 👍👍🖖.

¹ Samt alls ekki.

² Sem er ekki jafn fráleitt og ætla mætti því það er flotastöð í Chicago, held að hún hafi mest verið notið í þjálfun en kannski mun Trump nota hana til að ráðast inn í Kanada

I Saw the TV Glow (2024) ★★★★☆👍👍

Krakkar tengja við undarlegan sjónvarpsþátt og hvort annað.

Undarleg kvikmynd. I Saw the TV Glow er draumkennd en ekki þannig að hún hafi farið í taugarnar á mér. Hún náði að vinna inn fyrir skringilegheitum sínum sem er eitthvað sem á ekki við allar slíkar myndir.

I Saw the TV Glow fjallar almennt um hvaða hlutverk list getur haft í lífi fólk sem upplifir sig sem öðruvísi. Hún vísar sérstaklega í reynslu trans fólks sem kemur kannski ekki á óvart miðað við að leikstjórinn/handritshöfundur (Jane Schoenbrun) og annar aðalleikara (Jack Haven) eru trans.

Justice Smith leikur hitt aðalhlutverkið. Fred Durst (lint kex) leikur pabba hans. Emma Stone framleiddi I Saw the TV Glow ásamt eiginmanni sínum.

Tónlist spilar veigamikið hlutverk í I Saw the TV Glow. Hljómsveitin Sloppy Jane, ásamt fyrrverandi bassaleikara sínum Phoebe Bridgers, flytur lagið Claw Machine á sviði í næturklúbbi í einu atriði myndarinanr. Það heillaði mig nægilega til þess að ég fór að hlusta á hljómsveitina strax eftir að myndin kláraðist.

Óli gefur ★★★★☆ 👍👍.