Fallen Angels (1995)★★★★☆👍👍

Firring fólks sem er hvert á sinn hátt utanveltu í Hong Kong og þráir einhvers konar tengsl.

Í fyrra horfði ég á nokkrar kvikmyndir Wong Kar-wai sem ég hafði vanrækt fram að því. Þær voru flestar frábærar. Sérstaklega Chungking Express og In the Mood for Love.

Fallen Angels virkar næstum á mig eins og Chungking Express 2. Það er margt sem tengir myndirnar. Fyrri myndin er bara svo mikið betri. Stíleseringin jaðrar við að vera í of miklu aðalhlutverki á köflum. En hún er flott.

Maltin gefur ★★ (af myndum Wong Kar-wai var hann hrifnastur af 2046).

Óli gefur ★★★★☆.

Naked Gun (2025) ★★★⯪☆ 👍👍

Frank Drepin yngri er næstum jafn vanhæf lögga og pabbi hans.

Þetta tókst mikið betur en ég bjóst við. Naked Gun er, eins og forverar hennar, uppfull af aulabröndurum. Það er fínt að fá velheppnaða gamanmynd sem er undir 90 mínútum í bíó. Ég held nú samt að tvær¹ Naked Gun myndir hafi verið nóg.

Liam Neeson er góður í aðalhlutverkinu og Pamela Anderson eiginlega betri sem daman. Þetta var fjölskylduferð þannig að við gerðum tilraun til að útskýra fyrir drengjunum hve stór hluti tíunda áratugarins snerist um hana.

Ég verð að venju að nefna Channel 101 tengslin því leikstjórinn Akiva Schaffer byrjaði ferill sinn sem einn af Lonely Island-hópnum. Svo er Joe Dante tenging líka en hún er frekar langsótt².

Við biðum til bláendans til að lesa brandara og sjá lokaatriðið. Vorum sumsé ein eftir í salnum.

Óli gefur ★★★⯪☆.

¹ Ég veit að þær gömlu voru þrjár.

² Joe Dante leikstýrði nokkrum þáttum af Police Squad sem bæði floppaði og fæddi af sér Naked Gun myndirnar.

Weapons (2025) ★★★★☆ 👍👍

Fjölmörg börn í smábæ hverfa sporlaust og spjótin beinast að kennara þeirra.

Zach Cregger gerði hryllingsmyndina Barbarian sem mér þótti fín þar til hún varð klisjunum að bráð. En hann framleiddi líka langbestu mynd sem ég hef séð frá þessu ári, Companion. Þannig að ég var tilbúinn að gefa nýju myndinni hans séns.

Aðalhlutverkið í Weapons leikur Julie Garner og Josh Brolin er í næststærsta hlutverkinu. Svo má einnig nefna Alden Ehrenreich (sem við áfellumst ekki fyrir Solo), Benedict Wong og June Diane Raphael.

Weapons er hryllingsmynd en hún veltir sér ekki beint uppúr ógeðinu eins og Barbarian. Í versta falli má segja að hún missi dampinn á tímabili en hún vann mig alveg til baka. Ég var sumsé ánægður.

Óli gefur ★★★★☆.

Rich Kids (1979) ★★★⯪☆ 👍

Við lok áttunda áratugarins mynda tólf ára strákur og jafngömul stelpa á Manhattan tengsl á grundvelli þess hve ruglaðir foreldrar þeirra eru.

Rich Kids er fín mynd að öðru leyti en því að krakkarnir þurfa að koma samfélagslegri gagnrýni handritsins til skila í mjög svo ótrúverðugum samtölum. Það er ekki krökkunum að kenna. Þau eru fín. Ef þið viljið sjá mynd um krakka á Manhattan myndi ég hiklaust mæla með Rich Kids frekar en þeirri sem var gerð 1995.

Trini Alvarado sem leikur stelpuna er kunnugleg enda hefur hún leikið í mörgum kvikmyndum síðan 1979.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★⯪☆.

The Wedding Banquet (1993) ★★★★☆ 👍👍

Taívanskur maður í Bandaríkjunum gerir sitt besta til að leyna samkynhneigð sinni fyrir foreldrum sínum en lygarnar vinda upp á sig.

Það er áhugavert að horfa á The Wedding Banquet með nútímagleraugum en það virðist leiða ýmsa til þess að draga ályktanir sem passa ekki við mína túlkun. Sumt er óyrt og gefið í skyn á undarlegan hátt (eins og í svo mörgum kvikmyndum þessa tíma). Ég geri fastlega ráð fyrir að það sé hægt að leita að „The Wedding Banquet“ „problematic“ ef þið eruð forvitin.

Að öðru leyti stenst myndin tímans tönn. Það er svolítið skrýtið að hugsa til þess að The Wedding Banquet hafi komið út sama ár og Philadelphia. Það sem er í forgrunni þar er í bakgrunni hér. Sem er bara gott. Það er áhugavert að stúdera bolina sem Simon klæðist í myndinni.

The Wedding Banquet er frábær birtingarmynd samkynhneigðar á síns tíma mælikvarða. Hún tekur ástir tveggja karlmanna alvarlega.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★★☆.

Paddleton (2019) ★★★★☆ 👍👍

Krabbamein, dauði og vinátta fullorðinna karlmanna. Samt fyndið.

Ray Romano og Mark Duplass leika aðalhlutverkin í Paddleton. Ég hef ekki alltaf elskað Raymond en síðasta áratug eða svo hefur hann verið góður í nokkrum hlutverkum (s.s. The Big Sick og þessarri).

Mark er annar Duplass-bræðra sem hafa leikstýrt en aðallega framleitt frekar ódýrar kvikmyndir undanfarin ár. Þær hafa flestar farið framhjá mér en ég hef þeim mun oftar heyrt þá spjalla í hlaðvörpum. Mark skrifaði líka handritið að Paddleton með leikstjóranum Alexandre Lehmann.

Reyndar fór ég á Cyrus, mynd sem þeir br´æður leikstýrðu, á opnunarhátíð RIFF árið 2010 með Sigga félaga. Við pössuðum ekki mjög vel í kokteilboðið sem haldið var eftir á.

Paddleton er tæpar 90 mínútur og notar þann tíma vel. Hún er bæði sorgleg og fyndin.

Óli gefur ★★★★☆ og væri líklegri til að hækka um hálfa stjörnu heldur en lækka.

Minningar um morð / Memories of Murder (2003) ★★★★⯪ 👍👍

Árið 1986 leita suður-kóreskir lögreglumenn að raðmorðingja.

Minningar um morð er önnur mynd leikstjórans Bong Joon-ho (Sníkjudýrin og Mickey 17) og kom honum á kortið (ekki að ég hafi fylgst nógu vel með á sínum tíma).

Minningar um morð náði að grípa mig strax. Þegar ég var hræddur um að hún myndi fara í hjólför tók hún alltaf sveig í frumlegri áttir. Á vissan hátt fannst mér hún kjöldraga þær brellur sem hefðbundnar löggumyndir (og þættir) nota til að spila með tilfinningar áhorfenda.

Eftir áhorfið kíkti ég á hvað fólk hafði að segja um myndina og hjó eftir að margir töldu að lögreglumennirnir væru ótrúverðugar persónur. Mér þótti þeir aftur á móti ákaflega raunverulegir miðað við það sem ég hef lesið um glæparannsóknir fyrri ára. Mögulega er þetta þó stundum gert of kómískt.

Einkunnagjöf er frekar erfið hérna. Mögulega er ég að halda aftur af mér af því mér finnst ég vera full örlátur með stjörnur. Sem er kannski ekki óeðlilegt þegar ég er að eltast við myndir sem eru á helstu topplistum gagnrýnenda og áhorfenda.

Óli gefur ★★★★⯪ en er á mörkunum með að hækka sig í fimm.

Bragðið af kirsuberjum / Taste of Cherry (1997) ★★★⯪☆ 👍

Maður keyrir um Teheran í örvæntingafullri leit að nokkru sem ég passaði mig að vita ekki fyrirfram en kemur fram í öllum umfjöllunum myndina. Ég set það neðst¹.

Bragðið af kirsuberjum er margrómuð kvikmynd. Umfjöllunarefnið gefur kvikmyndinni ímynd mikillar dýptar sem ég er ekki viss um að hún hafi. Kannski er það versta sem ég get ég sagt um myndina að ég hafði ekki sérstaklega mikinn áhuga á að pæla meira í því hvernig hún endar.

Þetta hljómar eins og ég telji Bragðið af kirsuberjum lélega. Það er ekki rétt. Ég held að það sé merking þarna en hún stendur ekki undir þeim væntingum sem lofræður gefa til kynna.

Maltin gefur ★★★⯪. 

Óli gefur ★★★⯪☆.

Halda áfram að lesa: Bragðið af kirsuberjum / Taste of Cherry (1997) ★★★⯪☆ 👍

Bottoms (2023) ★★★★⯪👍👍

Gamanmynd um tvær samkynhneigðar vinkonur í bandarískum annars stigs skóla sem eru búnar að fá nóg af því að vera útundan og kærustulausar. Ofbeldið gæti fælt áhorfendur frá.

Að vanda reyndi ég að vita sem minnst um myndina fyrirfram. Fljótlega var ljóst þetta væri mjög spes mynd. Ég hefði ekki orðið hissa ef hún hefði farið alla leið í töfraraunsæi en hún hefur sín eigin mörk. Það mætti helst líkja Bottoms við Heathers í bland við Mean Girls en það segir ekki sérstaklega mikið.

Málið við Bottoms er að á bak við ótal fyndna og heimskulega brandara er ennþá fyndnari samfélagsrýni.

Leikstjóri Bottoms er Emma Seligman sem einnig skrifaði handritið með Rachel Sennott sem leikur annað aðalhlutverkið. Ayo Edebiri leikur hitt aðalhlutverkið. Hún er mögulega þekktari fyrir röddina sína (t.d. Envy í Inside Out 2) en hefur líka verið fyrir framan við myndavélina. Síðan verð ég að nótera nafnið Ruby Cruz því hún var líka frábær.

Leikkonan Elizabeth Banks kemur ekki fram í myndinni en er einn framleiðenda hennar.

Eftir að hafa horft á Bottoms var ég strax með stjörnugjöf í huga en ákvað að keyra myndina í gegnum tékklistann minn og það passaði.

Óli gefur ★★★★⯪.

Hable Con Ella (2002) ★★★⯪☆ 👍

Mynd um einmana karlmenn og eitraða ást.

Spænski leikstjórinn Pedro Almodóvar er gap í kvikmyndaáhorfi mínu. Þannig að ég valdi Hable Con Ella aðallega til að bæta aðeins fyrir það.

Hable Con Ella er ekki auðveld mynd. Nærri því um leið og hún byrjaði fékk ég óbragð í munninn út af dýraníðinu. Þarna er ógeðið raunverulegt og beint fyrir framan myndavélina.

Meginpartur Hable Con Ella er um tvo karlmenn og samband þeirra við hvorn annan og „sambönd“ þeirra við konur. Það er margt sem stuðar en ég er gjarn á að segja að við getum skilið ástæður án þess að nota þær til að afsaka.

Líklegast er réttast að setja Hable Con Ella í flokk með kvikmyndum sem tala gagnrýnið um karlmennsku. Vandamálið er aðallega að hérna hafa konurnar eiginlega enga rödd. Það er jafnvel talað fyrir þær en ekki við þær. Á mig virkar það samt sem gagnrýni á karlmenn sem vilja helst að konur þegi og séu sætar.

Hable Con Ella er á köflum mjög áhrifarík og að vissu marki skil ég vel hvers vegna fólk var rosalega hrifið af henni. En ég kemst ekki yfir allt hitt.

Maltin gefur ★★★★ og var í klappliðinu.

Óli gefur ★★★⯪☆.

Life Itself (2014) ★★★⯪☆ 👍

Heimildarmynd um líf og dauða kvikmyndagagnrýnandans Roger Ebert.

Í heild fannst mér Life Itself áhugaverð og áhrifarík en á köflum svolítið teygð.

Ég hef aldrei tengt sérstaklega við Rogert Ebert sem gagnrýnanda. Í mesta lagi sá ég vísanir í hann og Siskel í auglýsingum sem lofuðu tveimur þumlum upp. Svo stal ég þumlunum í tilraun minni til að komast hjá stjörnugjöf (að hafa þá af sömu hendi er auðvitað aulabrandari hjá mér).

Seint og síðarmeir, líklega eftir að Ebert lést horfði ég á töluvert af gömlum þáttum af Siskel & Ebert á YouTube. Þetta var mjög áhrifaríkt form. Tveir gaurar sem voru tilbúnir að rífast þó þeir væru jafnvel sammála um gæði myndarinnar. Og ég hugsaði til Ásgeirs og hvað það væri gott að hafa hann til að segja mér hve innilega rangt ég hef fyrir mér í skrifum mínum um kvikmyndir.

Mér þótti gaman að Jonathan Rosenbaum kemur fram í myndinni sem einn af fulltrúum „alvarlegrar“ kvikmyndagagnrýni. Í heild er hann auðvitað jákvæður, sér í lagi um vefinn Robert Ebert punktur com.

Leonard Maltin, sem kemur ekki fram í myndinni þrátt fyrir að hafa verið vinur Ebert, náði ekki að bæta Life Itself í kvikmyndahandbók sína því hún var nýhætt að koma út á þeim tíma en hann gaf henni mjög jákvæða umsögn á vef sínum.

La Noire de… (1966) ★★★★★ 👍👍🖖

Ung kona, Diouana, kemur til Frakklands frá Senegal til að vinna og kynnast því sem landið hefur upp á að bjóða.

Kvikmyndasögulega er La Noire de… mikilvæg og er sögð marka upphaf afrískar kvikmyndagerðar sunnan Sahara. Hún er þó ekki nema rétt rúmur klukkutími að lengd. Hún er frumraun rithöfundarins Ousmane Sembène sem leikstjóra. Hann vildi nota kvikmyndaformið til að ná til breiðari hóps, þar á meðal hinna ólæsu.

Á yfirborðinu er La Noire de… sorgarsaga ungrar konu frá Senegal sem kemur til Frakklands í þeirri trú að komið verði fram við hana sem manneskju. Mbissine Thérèse Diop í hlutverki Diouana náði mér um leið og hún birtist á skjánum. Hún er algjörlega lykillinn að myndinni þó hún segi lítið „upphátt“. Í staðinn heyrum við hugsanir hennar. Diouana (borið svolítið fram eins og Jóhanna ) segir okkur frá upplifun sinni og hvernig hún endaði í þessum aðstæðum. Samt segja svipbrigði hennar og látbragð oft meira.

Saga hennar mikilvæg en í henni felst líka saga um heimsvaldastefnuna og arfleifð hennar. Þetta er auðvitað aldrei sagt en við fáum áminningar svo sem mynd af Patrice Lumumba í herbergi kærasta Diouana.

Í öðru atriði sjáum við minnisvarða um þá Senegala sem börðust og dóu fyrir Frakkland í tveimur heimstyrjöldum. Sú áminning er mikilvæg þar sem kvikmyndir um þessar heimstyrjaldir hafa þar til nýlega algjörlega hunsað tilvist allra hermanna frá nýlendunum. Um leið og kvikmyndir sýndu áhorfendum loks einhverja þessarra hermanna var það kallað sögufölsun.

Útlitslega er La Noire de… ákaflega falleg kvikmynd. Mér þótti reyndar leiðinlegt að komast að það er til lengri útgáfa. Sú sem ég sá var 65 mínútur en það er til sjötíu mínútna útgáfa frá BFI. Ég þarf að finna hana næst.

Þar til að kom að lokaatriðinu var ég óviss um hvers konar einkunn hún fengi frá mér. Það náði mér algjörlega og gerði heildina betri.

Ef, eða þegar, þið hafið séð myndina get ég mælt með grein Jonathan Rosenbaum Black-And-White World. Hann kallar La Noire de… meistaraverk.

Óli gefur ★★★★★.

Bulworth (1998) ★★★⯪☆ 👍👍

Bulworth er bandarískur þingmaður sem fer yfir um og byrjar að tjá sig heiðarlega.

Ég man varla eftir því að hafa hugsað um Bulworth fyrren Joe Dante minnist á hana The Movies That Made Me. Síðan tók ég eftir því að Leonard Maltin, Roger Ebert og Jonathan Rosembaum voru allir mjög hrifnir af henni. Þetta eru ekki gagnrýnendur sem eru oft sammála.

Warren Beatty skrifaði handritið, leikstýrði og lék titilhlutverkið. Það sem vakti athygli mína þegar ég horfði á upphafstitlana hugsaði ég endalaust, „ha, þessi líka?“

Hérna eru nokkrir af þessum leikurum. Þó þið kannist ekki við nöfnin þá hafið þið líklega séð myndir eða sjónvarpsþætti með nær öllum þessum leikurum.

Christine Baranski, Don Cheadle, Halle Berry, Jack Warden, Joshua Malina (sem er frægastur fyrir að vera í West Wing), Larry King (sem hann sjálfur), Laurie Metcalf, Michael Clarke Duncan, Nora Dunn, Oliver Platt, Paul Mazursky, Paul Sorvino, Randee Heller (mamman í upprunalega Karate Kid og tengdamóðir Dan Harmon) og Sean Astin. Síðan er Saran Silverman á leikaralistanum en ég man ekki eftir henni úr myndinni.

Til að botna þetta samdi Ennio Morricone tónlistina.

Ég er ekki aðdáandi kvikmynda sem sýna draumóra bandarískra Demókrata um heiðarlega stjórnmálamenn. Það sem mér líkaði við Bulworth er að þingmaðurinn er ekki frábær gaur. Hann hafði kannski einhverjar hugsjónir en þær eru horfnar. Það besta við hann er líklega að honum líkar ekki við sjálfan sig Á vissan hátt er Bulworth meira Being There en West Wing. Hann hefur litla innsýn sjálfur en getur endurtekið það sem klárara fólk hefur sagt.

Bulworth er skrýtin mynd oftast fyndin. Hún er út um allt. Söguþráðurinn er auðvitað fjarstæðukenndur. Hún er stundum einfeldningsleg og mjög síns tíma í nálgun sinni á málefni. Samt á margt enn við í dag. Í myndinni skýtur Warren Beatty einna helst á Demókrata sjálfa. Hún er gagnrýni frá vinstri og hún er oft mjög harkaleg.

Bulworth er gölluð mynd en mér líkar vel við hana.

Flipped (2010) ★★★★⯪ 👍👍

Hugljúf mynd um fyrstu ástina.

Ein ástæðan mín fyrir að horfa á Flipped er að mig langaði að segja svolítið um leikstjórann. Samkvæmt öllum eðilegum mælikvörðum er Rob Reiner (sonur Carl) risi meðal leikstjóra í Hollywood. Hann gleymist samt eiginlega alltaf. Hann hefur hingað¹ til ekki leikstýrt framhaldsmynd en frá 1984 til 1992 leikstýrði hann sex² myndum sem hafa staðist tímans tönn. Fólk man bara eftir flestu um þær nema leikstjóranum. Þessar myndir gerðu sig ekki sjálfar.

This is Spinal Tap (1984)
Stand by Me (1986)
The Princess Bride (1987)
When Harry Met Sally (1989)
Misery (1990)
A Few Good Men (1992)

Síðan kom North árið 1994. Hún er ekki jafn slæm og fólk vill meina en hún er alls ekki góð³. Það var enginn skortur á góðum bíómyndum það árið og líklega er gott fyrir arfleifð Bruce Willis að hún hefur að mestu gleymst.

Flipped. Ég man varla þegar hún kom út og hef bara örsjaldan heyrt á hana minnst. Hún fékk tiltölulega góða dóma.

Callan McAuliffe og Madeline Carroll eru ákaflega góð sem krakkarnir. Hún fær reyndar, og nýtir sér, að persóna hennar er miklu áhugaverðari. Foreldrarnir eru Aidan Quinn, Penelope Ann Miller, Rebecca De Mornay og Anthony Edwards. Svo fáum við John Mahoney (pabbin í Frasier) í hlutverki afa stráksins.

Af ástæðum sem fáum þykja áhugaverðar finnst mér sérstaklega skemmtilegt að segja að bækur eða kvikmyndir kallist á við eitthvað. Hérna á það vel við af því að Reiner og handritshöfundurinn Andrew Scheinman gerðu líka saman (eins og svo oft) aðra frægari kvikmynd sem gerist á svipuðum tíma. Þær eru ekkert sérstaklega líkar en ef þú ert með athyglina hjá þér gætirðu heyrt einhverja tóna frá Stand by Me.

Það er sannarlega hægt að kalla þessa mynd ljúfa. Oft er það sagt um myndir sem eru að öðru leyti innihaldsrýrar. Þessi er töluvert meira en yfirborðið gefur til kynna. Svo náði myndin lendingunni. Svo margar myndir klúðra endinum en hérna tekst það.

En hvað er undir yfirborðinu? Ég vel hvað skrif mín um kvikmyndir skortir til að teljast raunveruleg gagnrýni. Ég er lítið fyrir greiningu en það er aðallega af því mig langar ekki að segja fólki hvað, eða hvernig, það eigi að hugsa um kvikmyndir fyrirfram. Mig langar frekar að vekja athygli á kvikmyndum í von að fólk horfi sjálft.

Í raun er miklu áhugaverðara að lesa gagnrýni um kvikmyndir eftir að hafa séð þær. Oft lauma ég einhverju í mín skrif sem fattast ekki fyrren eftir áhorf (aðallega aulabrandarar). Sumsé, ég treysti ykkur til að finna dýpið sjálf.

Maltin gefur ★★★ sem er full lágt. Endilega kíkið á lengri gagnrýni hans á myndina (afrit á Internet Archive ef tengillinn virkar ekki) … þegar þið eruð búin að horfa á myndina (augljóslega). Fólk þekkir Leonard Maltin aðallega út af stuttum umsögnunum í bókinni hans en þær gefa ekki góða mynd af honum sem kvikmyndarýni.

Óli gefur Flipped ★★★★⯪ og telur að myndin sýni að Rob Reiner er frábær leikstjóri.

¹ Vandlega orðað því við erum að fá Spinal Tap 2.

² Þarna á milli er The Sure Thing (1985) sem mér finnst líklegt að ég hafi séð en fólk talar voðalega lítið um hana lengur.

³ Þegar ég sá North loksins þótti mér langskemmtilegast að sjá dönsku leikkonuna Scarlett Johansson í sínu fyrsta hlutverki tíu ára gamla.

Atburðurinn / L’Événement (2021) ★★★★★ 👍👍

Árið er 1963 og ung frönsk kona … höskuldur neðst¹

Þetta var ein erfiðasta mynd sem ég hef séð. Ég þurfti ítrekað að horfa undan. Mikið verra en hryllingsmyndir. Á undarlegan hátt virkar hún líka eins og spennumynd.

Byggt á sönnum atburðum.

★★★★★

Halda áfram að lesa: Atburðurinn / L’Événement (2021) ★★★★★ 👍👍

Litla mamman / Petit Maman (2021) ★★★★★ 👍👍

Átta ára stelpa heimsækir æskuheimili móður sinnar.

Eftir að hafa séð Málverk af ungri konu sem brennur fann ég þörf fyrir að kíkja á fleiri myndir eftir Céline Sciamma. Ég athugaði líka hvort Ásgeir hefði skrifað eitthvað um Málverkið eða önnur verk hennar og sá að hann virtist hrifinn af Litlu mömmunni. Ég rétt skimaði yfir það sem hann skrifaði því Ásgeir hafði aðrar hugmyndir um höskulda en ég (kannski af því hann þekkti upprunalega Höskuld betur en ég).

Kjarni myndarinnar er einfaldlega þörf Nelly til að skilja móður sína.
Ásgeir H Ingólfsson

Ég skal láta þetta duga frá honum. Þið getið lesið færsluna hans Ásgeirs fyrirfram ef þið viljið ekki láta koma ykkur á óvart. Það var samt fljótt mjög augljóst hvers vegna hann féll fyrir myndinni.

Aðalleikkonurnar eru stórkostlegar og ná sérstaklega vel saman. Mig hryllir við hvernig Hollywood hefði farið með leikaraval. Myndin er falleg en ekki íburðarmikil.

Petite Maman fellur hún í flokk kvikmynda sem voru gerðar í heimsfaraldri. Kannski að Covid-19 hafi með sínum takmörkunum orðið að kvikmyndastefnu? Einskonar uppfærðri útgáfu af Dogme-95.

Mjög frumleg útfærsla á þessar tegund kvikmynd.

Á ég að þora að segja tvo daga í röð að þetta sé ein besta kvikmynd sem ég hafi nokkurn tímann séð?

★★★★★

Hæðin þar sem ljónynjurnar öskra / Luaneshat e kodrës / La colline où rugissent les lionnes (2021) ★★★☆☆ 👍

Þrjár ungar konur sem búa í litlu þorpi í Kósovó dreymir um að komast burt en frelsið virðist utan seilingar.

Þegar ég er hrifinn af kvikmyndum fer ég oft í tenglahopp á leikurum og leikstjórum til að sjá hvað fleira ég ætti að setja á stóra áhorfslistann minn. Ein af leikkonunum í Portrait de la jeune fille er Luàna Bajrami og ég tók eftir að hún hefur líka reynt fyrir sér sem leikstjóri og handritshöfundur.

Þó ég efist um að myndin sé sérstaklega sjálfsævisöguleg þá endurspeglar Hæðin þar sem ljónynjurnar öskra¹ uppruna leikstjórans. Luàna Bajrami er fædd í Kósovó en flutti sjö ára til Frakklands. Hún leikur einmitt lítið hlutverk í myndinni, unga konu frá París sem er að heimsækja ættingja.

Styrkleikar myndarinnar eru persónurnar og leikarar en sagan sjálf er aðeins of stefnulaus og endirinn aðeins of snubbóttur. Í heild er ég þó ánægður með myndina og hefði fyrirfram ekki giskað að leikstjórinn væri tvítugur (hún virðist hafa verið byrjuð á henni þegar hún var átján ára). Ef stjörnugjöf mín tæki tillit til aldurs myndi ég hækka hana um hálfa stjörnu.

★★★⯪☆

¹ Almennt er titillinn á frönsku en myndin sjálf er á albönsku. Það ergir manninn sem vill hafa titilinn á frummálinu eða íslensku.

Electrick Children (2012) ★★★☆☆ 👍

Líf fimmtán ára stúlku í einangruðu samfélagi klofningshóps Mormóna umturnast þegar hún uppgötvar kassettu.

Julia Garner (krullhærða leikkonan úr Ozark) er í aðalhlutverki, Billy Zane (vondi gaurinn í Titanic) leikur fjölskylduföðurinn og Rory Culkin (yngstur af systkinunum) er vandræðaunglingur.

Electrick Children er fín mynd sem náði ekki alveg að vinna jafn vel úr efninu og ég hefði vonað. Endirinn var mér ekki að skapi.

Óli gefur ★★★☆☆ en myndin finnst ekki í Maltin.

Málverk af ungri konu sem brennur / Portrait de la jeune fille en feu (2019) ★★★★★ 👍👍

Listmálari fer til að þess að mála aðalskonu á afskekktri eyju nærri Bretaníuskaga í Frakklandi í lok átjándu aldar.

Portrait de la jeune fille en feu er mynd um konur og eftir konu. Céline Sciamma skrifaði handrit og leikstýrði.

Öll aðalhlutverkin eru í höndum kvenna. Af þeim er það Valeria Golino sem ég þekki best enda var hún mjög áberandi á seinni hluta níunda áratugarins og fyrri hluta þess tíunda. Rain Man, Hot Shots myndirnar, Immortal Beloved og svo framvegis. Hinar eru Noémie Merlant, Adèle Haenel og Luàna Bajrami. Þær eru allar frábærar. Ekki mikið meira að segja um það.

Söguþráðurinn er ekki flókinn. Það eru aðstæður, persónur og sambönd sem skipta öllu.

Í gegnum Portrait de la jeune fille en feu er áberandi skortur á einu sem við búumst við að fá í kvikmyndum. Það gerir hins vegar þau fáu atriði sem eru þannig skreytt ennþá öflugri. Sérstaklega í lokin.

Þetta er ótrúlega falleg kvikmynd og endurspeglar að ýmsu leyti málverk. Mörg augnablik eru ekki bara þannig að þú gætir sett þau í ramma og hengt á vegg heldur líta bókstaflega út eins og málverk. Búningarnir eru mjög sannfærandi. Fötin líta ekki bara vel út, þau líta út fyrir að vera gerð til þess að nota þau.

Ef ég færi alveg ógurlega sparlega með fimm stjörnu dóma, sumsé ef ég væri að leita að myndum sem nálgast fullkomnun, myndi Portrait de la jeune fille en feu samt fá þær allar. Ein besta mynd sem ég hef séð.

★★★★★

Kinds of Kindness (2024) ★★★☆☆ 👍

Kinds of Kindness er eiginlega þrjár stuttmyndir með sömu leikurunum í ólíkum hlutverkumog ótengdum sögum leikstýrt af Yorgos Lanthimos.

Helstu leikarar eru Emma Stone, Willem Dafoe, Margaret Qualley¹,
Mamoudou Athie og Hong Chau.

Mér leiddist fyrsti hlutinn og slökkti næstum á myndinni. Miðjusagan var fín. Sú síðasta góð.

Óli gefur ★★★☆☆ en það er frekar mikið slump því við vitum öll að stjörnugjöf er alltaf marklaus og sérstaklega þegar um er að ræða mynd sem er búin til úr svona ólíkum hlutum.

¹ Dóttir Andie MacDowell. Margaret er fædd sama ár og Four Weddings and a Funeral sló í gegn. Seinna voru Andie og Dennis Quaid saman þannig að Margaret og Jack Quaid voru bara næstum því, samt alls ekki, stjúpsystkin.

Shutter Island (2010) ★★⯪☆☆ 🫳

Alríkismarskálkur (eilítið frumleg þýðing) rannsakar dularfullt mannshvarf á geðsjúkrahúsi sem er staðsett á eyju.

Kvikmyndin Shutter Island er að flestu leyti einfaldlega vel gerð mynd. Leikararnir alveg ágætir (m.a. annars sonur Carl Wilhelm von Sydow, hins knáa sænska þjóðfræðings). Tónlistin fín. Mér líkaði ekki við hana. Við Martin eigum allavega alltaf Hugo.

Shutter Island er of löng. Síðan er ég almennt ekki hrifinn af draumkenndum senum, sérstaklega ekki endurtekningarsömum og langdregnum. Sem þýðir að þessi mynd var mjög innilega ekki fyrir mig.

Shutter Island er mynd sem á að skilja eftir spurningar. Mín spurning er hvort að vafasöm birtingarmynd geðsjúkdóms og undarlegar vísanir í samtímasögu myndarinnar séu vísbendingar um lausn gátunnar eða bara mistök handritshöfunda.

Nokkrir umræðuþræðir sem ég fann benda til þess að það sé til fólk sem túlkar þetta sem vísbendingar sem gangi þvert á vinsælustu kenninguna um myndina. Mér finnst líklegra að þetta séu mistök og að ég nenni ekki að pæla meira í því.

Maltin var ekki hrifinn og gaf ★★.

Óli gefur ★★⯪☆☆.

Easy A (2010)★★★☆☆👍

Unglingsstúlka sem er leið á að vera óspennandi leyfir sér að spinna sögu en missir síðan takið á þræðinum.

Easy A er mynd sem hefði getað verið frábær en missir of oft takið á takti og tón. Hún var á köflum ákaflega fyndin.

Emma Stone augljóslega frábær. Stanley Tucci og Patricia Clarkson er ákaflega skemmtileg sem foreldrarnir. Amanda Bynes, sem ég þekki bara úr fyrirsögnum, kemur mjög sterk inn í hlutverki skúrksins sem heldur að hann sé bjargvætturinn. Gaman að sjá Dan Byrd sem var góður í Cougar Town (og í gestahlutverki í Community).

Starfsfólks skólans eru m.a. Thomas Hayden Church, Lisa Kudrow og Malcom McDowell, þau fyrstnefndu góð en sá þriðji er voðalega lítið nýttur sem skólastjórinn.

Hérna leikur Aly Michalka í mynd með Stanley Tucci en systir hennar lék með honum í The Lovely Bones. Mér líkar betur við hann sem svalan pabba heldur en barnamorðingja.

Maltin gefur ★★½.

Óli gefur ★★★☆☆.

The Pale Blue Eye (2022) ★★☆☆☆🫴

Gaur er kallaður til að rannsaka dauða nema við herskólann West Point árið 1830.

Það er hálfgerður höskuldur í öllum lýsingum á The Pale Blue Eye og ég er eiginlega tilneyddur til að gera það sama. Ef þið viljið ekkert vita getið þið stoppað núna.

Útlitslega er The Pale Blue Eye ákaflega vel heppnuð. Það virðist hafa verið mikið lagt í búninga og sviðsmynd. Bara ef myndin sjálf hefði verið betri.

Christian Bale er rannsakarinn og bara fínn sem slíkur. Við höfum síðan Lucy Boynton, Charlotte Gainsbourg, Gillian Anderson og meiraðsegja óþekkjanlegan Robert Duvall. Verst er að þau hafa mjög takmarkaðan efnivið. Ég hafði á tilfinningunni að þau væru öll að gera sitt besta.

Svo kemur höskuldurinn sjálfur, Harry Melling er í hlutverki Edgar Allan Poe. Honum tekst ágætlega til við að búa til trúverðuga en óspennandi útgáfu af skáldinu.

Margir höfundar eru greinilega spenntir fyrir því að setja sögulegar persónur í uppskáldaðar aðstæður og búa til einhvers konar baksögur sem eiga að skýra líf þeirra og verk. Það mistekst bara svo rosalega oft.

The Pale Blue Eye hvirflast í kringum gátu og rannsóknina á henni. Mér tókst ekki að hafa sérstakan áhuga á henni og úrlausnin, sem var að sumu leyti kjánaleg, hafði því ekki mikil áhrif á mig. 

Óli gefur ★★☆☆☆

Sex (2024) ★★★☆☆👍

Tveir norskir vinnufélagar spjalla saman um kynlíf og drauma og við fylgjumst með því hvernig umræðuefnið hefur áhrif á líf þeirra næstu daga.

Þriðja mynd kvöldsins er Sex, fyrsta myndin í þríleiknum Sex-Drømmer-Kjærlighet. Kynhneigð og framhjáhald eru á yfirborðinu meginþema myndarinnar en aðallega er hún þó um vináttu tveggja karlmanna.

Að vissu leyti má segja að Sex kallist á við Chasing Amy varðandi hugmyndir um algilda og einfalda kynhneigð. Auðvitað er kafað dýpra hér en kannski ekki sérstaklega djúpt á mælikvarða samtímans. Almennt er myndin líka mjög endurekningarsöm. Persónurnar eru alltaf að tala um það sama og oft með litlum viðbótum.

Á milli atriða eru allskonar skot af borginni, byggingum og umferð sem ég fílaði þau alls ekki. Voru þau að segja eitthvað sem ég missti af? Ég get ekki útilokað það en mér þykir það ólíklegt. Það hefði mátt skafa einhverjar mínútur af.

Óli gefur ★★★☆☆ og er tilbúinn að kíkja á aðra mynd í þessum þríleik með lækkaðar væntingar.

Róm (2024) ★★⯪☆☆👍

Dönsk hjón á eftirlaunum heimsækja Róm, hann í fyrsta skipti en hún á gömlum slóðum.

Konan stundaði listnám í Róm en karlinn er menningarsnauður. Við skiljum ekki alveg af hverju þau eru ennþá saman og stundum virðast þau sjálf ekki vita það.

Myndin er betri þegar hún er fyndin en þegar hún er dramatísk. Það er ekki alltaf vel höndlað hvernig myndin hoppar úr kjánalátum yfir í alvarleika.

Það er hálf-klisjukennt atriði þegar eiginkonan er að tala um dóttur sína við Svíann. Hefði mátt afgreiða öðruvísi.

Norræn samskipti sýnd í áhugaverðu ljósi.

Óli gefur ★★⯪☆☆.