Síðasta ljóðabók Sjóns

Síðasta ljóðabók Sjóns er samstarfsverkefni Jóns Arnar Loðmfjörð og Arngríms Vídalín. Allir textar í bókinni eru unnir uppúr ljóðum Sjóns og viðtölum við hann.
Úr fréttatilkynningu:
hreistraður fákur hleypur niður augnlok mín
og leggur niður næfurþunnar blæjur
lykt af lirfum berst fyrir hornið
og býr til falleg sár við brjóst mitt
fiskar við hvern fingur
og með dúfur í ermunum
í langröndóttum náttslopp
í myrkrinu
og ljósinu
og öfugt
Loksins loksins!
Síðasta ljóðabók Sjóns er loksins komin út og ekki seinna vænna! Hér ægir saman ótrúlegum fjölda ólíkra fyrirbæra í óheftu hugsanaflæði snillingsins, stefnt saman með aðferðum súrrealismans af þeirri natni og innsæi sem vænta mátti af höfundi.
Allir textar bókarinnar eiga það sameiginlegt að vera með einum eða öðrum hætti byggðir á ljóðum Sjóns. Aldrei fyrr á Íslandi hefur önnur eins bók komið fyrir almenningssjónir og því ættu sannir ljóðaunnendur ekki að láta þetta snilldarverk framhjá sér fara!
Ritstjóri er Celidonius, útgefandi er Nýhil og leiðbeinandi verð er kr. 490,-
Sjón um Síðustu ljóðabók Sjóns:
„Ég er búinn að fá eintak af bókinni og get mælt með henni. Það kemur mér á óvart hversu mörg tækifæri til ljóða eru falin í orða- og myndabanka frumgerðanna. Best væri að þeir sem keyptu Ljóðasafnið mitt kipptu þessari bók með sér líka, og öfugt. Saman leggja þær grunninn að jólaspili ljóðelsku fjölskyldunnar í ár. Eins og André Breton þreyttist ekki á að minna okkur á þá sagði Greifinn af Lautreamont: Ljóðið er skapað af öllum. Til lukku Celidonius!“
Ásgeir H Ingólfsson um Síðustu ljóðabók Sjóns:
„Þá er einn möguleiki enn, að hér hafi þeim félögum tekist – án nokkurrar aðstoðar frá fjölmiðlum – að túlka hvernig fjölmiðlum tekst oft og iðullega að skrumskæla alla list með orðræðu sinni, fjarlægjast kjarnann með hverjum dálksentimetra. Eini munurinn sá að fyrst fjölmiðlarnir hirða ekki um það þá gera þeir það sjálfir, listin orðin háð skrumskælingunni, sirkusnum […] fjári fín ljóðabók.“